Cynthia Trililani

Cynthia Trililani

Að tilheyra nýju heimalandi að heiman

Ég kom til Íslands frá Indónesíu fyrir mörgum árum síðan.  Eins og aðrir innflytjendur upplifði ég menningarsjokk og það tók mig alllangan tíma að aðlagast íslenskri menningu og samfélaginu í heild. Reyndar er ég ennþá að aðlagast. Að loknu BA námi mínu við Háskóla Íslands fyrir nokkrum árum, skrifaði ég lokaritgerð um stöðu asískra kvenna á Íslandi og almenn viðhorf til kvenkyns innflytjenda og endurspeglun þeirra í íslenskum kvikmyndum og bókmenntum. Auk þess fjallaði ég um birtingarmyndir kvenkyns innflytjenda eins og hún birtist í íslenskum fjölmiðlum. Viðhorf Íslendinga til útlendinga hafa að miklu leyti mótast af fréttum í fjölmiðlum.

Asískar konur í augum Íslendinga
Hugmyndir Íslendinga um asískar konur byggjast að stórum hluta á umfjöllun fjölmiðla, sem enn fremur mótast af staðalímyndum eða móta ímyndirnar. Meðal neikvæðra staðalímynda sem koma fram er að asískar konur séu vændiskonur, kúgaðar og undirgefnar, fátækar og ómenntaðar. Algengasta staðalímynd á asískum konum er að þær séu póstkröfubrúðir að flýja fátækt í heimalöndum sínum. Það eru hins vegar tvær jákvæðar staðalímyndir sem fyrirfinnast, – það er að asískar konur séu vinnusamar og metnaðargjarnar. Því miður eru þessar staðalímyndir algengar og hafa margar asískar konur hér á landi  svipaðar sögur að segja og sjálf hef ég upplifað þær persónulega.
Þessi reynsla mín og annarra asískra kvenna hefur sýnt að við eigum í erfiðleikum með að takast á við eigin sjálfsmynd, vegna ólíkra menningarlegra gilda og mismunandi viðhorfa sem við upplifum í samfélaginu. Vegna þessa og reynslu minnar, ákvað ég að kanna það hvernig austurlenskar konur upplifa og aðlagast fjölmenningu á Íslandi í framhaldsnámi mínu við Háskóla Íslands.

Staðalímyndir, innbyggðir fordómar og skortur á stuðningi
Niðurstöður sýndu að ólíkir menningarheimar milli upprunalands og Íslands, auk skorts á íslenskukunnáttu, eru helstu þættir sem skapa félagsmenningarlegar og sálrænar hindranir milli kvenkyns innflytjenda og íslensks samfélags í heild. Þau viðhorf og meðhöndlun sem þær fá í íslensku samfélagi má rekja til fyrrnefndra staðalímynda útfrá kynþætti og kynferði, sem hefur áhrif á aðlögun að samfélaginu. Því má segja að staðalímyndir samfélagsins gagnvart kvenkyns innflytjendum frá Asíu skipi þeim í óæðri stöður. Staðalímyndir, innbyggðir fordómar og skortur á félagslegum stuðningi við konur af erlendum uppruna verða til þess að þær þróa með sér meðvitund um einangrun í samfélaginu og jafnvel þá hugmynd að þær tilheyri því ekki.

Félagslegur stuðningur mikilvægur
Tilraunir þeirra til að mynda tengsl við íslenskt samfélag mæta oftar en ekki óhagstæðum viðbrögðum, sem eykur á tilfinninguna um að vera óvelkomin. Væntingar þeirra til íslensks samfélags er að þær séu metnar á grundvelli getu og kunnáttu, félagslegs bakgrunns og menntunar, í stað þess að alhæfa út frá menningarlegum bakgrunni, þjóðerni og kynþætti. Skortur á íslenskukunnáttu hindrar oft samskipti og skapar fjarlægð því oft telja þær sig ekki tilheyra samfélaginu og upplifa sig félagslega útskúfaðar. Í kjölfarið takmarkast tækifæri á faglegum sviðum. Félagslegur stuðningur og samþykki samfélagsins hefur áhrif á aðlögun þeirra og vegna lítils félagslegs stuðnings frá íslensku samfélagi, leita þær í félagsskap annarra aðfluttra kvenna í svipaðri stöðu.  Þörfin á félagslegum stuðningi er því mikilvæg, sérstaklega fyrir þær konur sem skortir íslenskukunnáttu. Rétt er þó að taka fram, að þrátt fyrir þær staðalímyndir sem eru til staðar, eiga þær alls ekki við um allar asískar konur sem sest hafa hér að.

Mikilvægt að virða fjölmenningu í menntakerfinu
Þörf er á að stuðla að aukinni vitund um mikilvægi fjölmenningar og ýta undir umburðarlyndi og skilning á hugtakinu. Mikilvægt er að virða fjölmenningu á Íslandi og að hún sé metin að verðleikum. Sömuleiðis er mikilvægt að fjölmenningu sé fagnað í menntakerfinu og yngri kynslóðir séu fræddar til að stuðla að aukinni vitund um mikilvægi menningar og fjölbreytni þegar kemur að þjóðerni. Að lokum er bent á nauðsyn þess að íslenskt samfélag verði móttækilegra þegar kemur að jafnrétti hinna ólíku þjóðernishópa og þeim kostum sem ólík þjóðerni, trúarhópar og menning fela í sér. Þar með getur íslenskt samfélag verið betur í stakk búið að kljást við kynþáttamismunun og fordóma.

Að vera hluti af íslensku samfélagi
Flest öll eigum við svipaða drauma og væntingar um betra líf fyrir okkur sem einstaklinga og fjölskyldur. Hvort sem við erum innflytjendur eða ekki. Að aðlaga sig að nýju heimili fjarri heimaslóðum getur verið erfitt. Hið langa ferðalag frá heimalandi okkar til þess að skapa nýtt heimili á Íslandi er táknrænt, í ljósi þeirra erfiðleika sem að baki liggja. Þrátt fyrir að við mætum erfiðleikum í samfélaginu við að aðlagast, dregur það alls ekki úr okkur kjarkinn. Við erum flestar fullar áhuga og viljum taka þátt og gefa af okkur til íslensks samfélags. Okkur langar að vera hluti af íslensku samfélagi, en við getum ekki gert það einar og án ykkar stuðnings.