Patrycja Wittstock Einarsdóttir

Erlent nafn í atvinnuleit

Fyrir 19 árum síðan flutti ég til Íslands. Þá aðeins 5 ára gömul, upplifði ég fyrsta flugið, stjórnlaus lömb í tugatali, drungaleg fjöll og nýtt tungumál. Ég þekkti engann nema mömmu mína og var að kynnast nýja íslenska pabba mínum.

Ég eignaðist nýtt heimili daginn áður en 1. bekkur byrjaði. Í upphafi skólans meðan ég var að aðlagast áttaði ég mig á því að eitthvað nýtt væri í gangi. Ég var lítil í mér, vissi að ég væri flutt frá ömmu og afa í Póllandi. Nú var ég víst komin til Íslands. Mamma hafði töluvert þyngri áhyggjur en ég. En á þessum tíma áttaði ég mig engan veginn á því að hvað þjóðerni væri og að það gæti mögulega skipt einhverju máli.

Mér gekk vel að læra tungumálið og eignaðist fljótlega vini. Ég var orðin svo flink, að 7 ára gömul gerði ég höfðingjalega tilraun til að bjóða öllum bekknum mínum út til Póllands. Það varð að sjálfsögðu ekkert úr því nema vægt áfall foreldra minna.

Á þeim aldri þegar ég áttaði mig á því hvað þjóðerni væri, tók ég eftir að ekki öllum þótti fínt að vera frá Póllandi. Í varnarskyni tók ég upp ákveðið tímabil sem fólst í því að taka þátt í því að gera lítið úr og hlæja af ,,týpískum pólverjum”. Ég gekk svo langt að byrja brandarana seinna meir, í þeim tilgangi að sýna fólki að ég væri aldeilis ekki eins og þessir margumtöluðu pólverjar. Einstaka sinnum til að koma því á hreint, að ég væri ekki þessi ,,týpíski pólverji” fylgdi mér útskýring. Hún er eiginleg ekki pólsk því hún og mamma hennar eru svo svakalega duglegar að aðlagast. Samkvæmt þessari flokkun mátti ég sko vera með.

Að þessu tímabili loknu fór ég sem betur fer að fullorðnast. Eftir stúdentspróf var ferðinni heitið til Reykjavíkur í framhaldsnám. Það var ekki fyrr en þegar kom að því að sækja um sumarvinnu fóru málin að flækjast. Ég vissi að erfitt væri að fá vinnu svo ég lagði mig alla fram við að láta skoða ferilskránna mína, en á henni var þá 10 ára óslitinn starfsferill samhliða skóla, BS gráða í næringarfræði og eitt auka tungumál. En þar seinasta sumar fékk ég eitt svar af um það bil 40 starfsumsóknum. Fyrir utan eitt annað sem amma mín þvingaði í gegn. Ég hélt lengi vel að þetta væri eðlilegur gangur mála, þar til ég fékk þær upplýsingar frá pabba að ó-íslenska nafnið mitt væri mögulega ástæðan.

Þar sem ég hafði aldrei áður kynnst fordómum í minn garð, hélt ég í minni barnslegu trú að raunverulega væri svonalagað ekki til staðar á Íslandi. Eftir alla þessa vinnu, átti ég virkilega að trúa því að framtíðarmöguleikar mínir væru skertir út af nafninu mínu? Ég ætlaði ekki að kaupa það, en viðtalið sem amma barðist fyrir fór fram á skrifstofu, þar sem umsóknin mín lá á skrifborði þess sem sá um ráðningar, ásamt öðrum umsóknum merktum erlendum nöfnum. Tilviljun? Þrátt fyrir þetta var ég lengi að kyngja þeim stóra bita að þarna væri um algenga fordóma að ræða.

Daginn fyrir mánaðarmót fékk ég vinnu, ég var heppin! Fékk vinnu á stofnun sem lýsti sér sem fordómalausum vinnustað (frábært framtak!). Í kaffitímum á fordómalausu stofnuninni líkt og annarsstaðar gátu umræðurnar þó verið heldur fordómafullar.

Eins hef ég oft heyrt pólskumælandi ræða misviðeigandi hluti, bæði um mig og aðra í kringum sig, eins og ekki væri möguleiki á því að ég gæti skilið stakt orð. Ó, svo rangt.

Gleymum því ekki að við erum útlendingar annarsstaðar. Við segjumst vera fordómalaus en hvað varðar hugarfarið eigum við enn langt í land. Það þurfa allir að gæta sín, sama hvar þeir eru. Ég hef lært það af reynslunni að þegar talað er niður til fólks af erlendum uppruna hafa fæstir það að markmiði að gera lítið úr viðkomandi. Oftast er þekkingarleysi ástæðan.

Eftir atvinnuleitarævintýrið ákvað ég að taka upp nafn föður míns og er nú Einarsdóttir. Þrátt fyrir litla ævintýrið, þá telst ég heppin ef svo má orða. Ég náði málinu vel með hjálp pabba míns og fjölskyldunnar. Mér gekk vel í skóla og eignaðist marga vini. Við mamma tókum virkan þátt í samfélaginu. Já, ég var samþykkt! Hvað með alla hina sem ekki hafa svona góðan stuðning?

Eitt að lokum, þurfti ég virkilega að breyta nafninu mínu svo ég fengi sömu framtíðarmöguleika og aðrir? Berum virðingu fyrir hvort öðru, verum næs.