Á hvaða tungumáli hugsarðu?

Rauði krossinn stendur að átakinu Vertu næs og býður upp á fræðslu sem nefnist „Fjölmenning eða fordómar? Fræðsluherferðin hefur farið vítt og breitt um landið, alls hafa yfir 5.000 börn og unglingar hlýtt á fyrirlestrana og tekið þátt í umræðum.  Einnig hafa verið haldin 14 námskeið fyrir almenning og Rauða kross fólk.

Þau Anna Lára og Juan sjá um fræðsluna og er megin inntak hennar að hvetja okkur til að líta í eigin barm og skoða hvernig við getum lagt okkar af mörkum til að taka vel á móti þeim innflytjendum sem kjósa að búa með okkur hér á Íslandi og meta að verðleikum framlag þeirra til samfélagsins. Aðlögunin er beggja.

Í síðustu viku ferðuðust Anna Lára og Juan um Austurland ásamt Degi Skírni verkefnisstjóra Rauða krossins og heimsóttu unglingastig grunnskóla fjórðungsins. Þau hittu 478 krakka í skólum á svæðinu og héldu einnig tvö námskeið fyrir fólk á besta aldri. Krakkarnir luma alltaf á skemmtilegum spurningum og meðal annars var Juan oft spurður að því á hvaða tungumáli hann hugsaði.