Hver vill ekki vera næs?

Krakkarnir í Grundaskóla á Akranesi voru alla vega ekki í nokkrum vafa. Þau fengu nýlega þau Önnu Láru Steindal og Juan Camilo í heimsókn til að ræða um hvað fjölbreytileikinn færir okkur og hvort hér leynast duldir fordómar í garð þeirra sem flytjast hingað annars staðar frá. Það var ekki að heyra annað en að krakkarnir væru viss í sinni sök, við eigum að vera almennilegar manneskjur og taka vel á móti fólki af erlendum uppruna. Við búum í einum heimi þar sem allir eiga að búa við sömu mannréttindi og við njótum þess öll þegar samfélagið verður fjölbreyttara.

Rauða krossinn stendur þessi misserin fyrir átakinu Vertu næs. Í því felst að við lítum öll í eigin barm og skoðum hvernig við getum lagt okkar af mörkum til að taka vel á móti þeim innflytjendum sem kjósa að búa með okkur hér á Íslandi. Rauði krossinn býður skólum landsins upp á að fá þau Önnu Láru og Juan í heimsókn og ræða þessi mál við nemendur. Miðað er við að þau hitti nemendur í efstu bekkjum grunnskólanna og nemendur í framhaldsskólum.

Það verður iðulega uppi fótur og fit þegar þau Anna Lára og Juan demba sér á kaf í fordómana, sem við beitum mörg án þess að gera okkur grein fyrir því. En það verða líka oft fjörlegar umræður sem vekja enn fleiri spurningar. Og Grundaskóli tók þetta til enn frekari vinnslu eins og sjá má á myndunum; hvað þýðir fjölbreytileikinn, hvaða staðalmyndir notum við, hvað þýða mannréttindi fyrir alla, hvaða áhrif hefur framkoma okkar á aðra og svo mætti lengi telja. Við þökkum þeim fyrir góðar móttökur og hlökkum til að hitta fleiri ungmenni víðar um landið.

PS.
Margir hafa haft orð á því að næs sé alls ekki íslenskt orð og hvers vegna verið sé að nota það sem slagorð fyrir þetta átak! Jú, rétt er það, það finnst ekki í handritunum. Þetta litla orð er innflytjandi, sem meira að segja er nokkuð kominn til ára sinna, og stingur sér inn í málfar fólks á öllum aldri. Þess vegna var ákveðið að leyfa þessu litla orði að vera með í slagorðinu til vekja athygli á málefninu. Við vonum að það skaði alla vega engan.