Renata Emilsson Peskova

háskólanemi og formaður Móðurmáls – samtaka um tvítyngi

Renata Peskova, háskólanemi og formaður Móðurmáls – samtaka um tvítyngi

Við erum næs

Ég er innflytjandi, mamma tvítyngds drengs, skólaforeldri, formaður Móðurmáls – samtaka um tvítyngi. Ég er háskólanemi. Ég er borgari. Ég er sjálfboðaliði. Ég er næs.

Þegar ég flutti til Íslands fyrir ellefu árum, var ég aðallega innflytjandi. Ég þurfti að takast á við ýmsar áskoranir, eins og flestir sem eru koma í nýtt land. Margt var erfitt, tungumálið, skortur á félagstengslum, ný sjálfsmynd sem kom aðallega utan frá, samskipti við fáa í nýja lífinu. Það var eins og að loka dyrum og skilja allt eftir sem ég hafði byggt upp í gamla landinu. Allt litaðist af sterkum tilfinningum, oftast mjög neikvæðum.

En svo gerðist ég sjálboðaliði í Rauða krossinum. Ég fór að hjálpa fólki sem var verr statt, fólki sem flúði erfiðar kringumstæður í heimalandinu og lenti í flóknari stöðu en ég á Íslandi. Það að geta deilt með öðrum reynslu og þekkingu setti hlutina í nýtt samhengi. Í gegnum sjálfboðaliðastarfið með Rauða krossinum kynntist ég bæði Íslendingum og innflytjendum sem voru sterkir einstaklingar með skýr markmið og viljann til að sinna góðgerðarmálum.

Þegar sonurinn fæddist, stóð ekkert annað til en að hann yrði tvítyngdur. Ásamt öðrum löndum mínum stofnuðum við félag sem hafði það að markmiði að kenna tvítyngdum börnum tékknesku. Þannig hitti ég fleira gott fólk sem gat tekið sig saman og unnið að hag barna, óeigingjarnt og auðvitað – í sjálboðaliðavinnu. Við höfum kennt í fjögur ár, skipulagt viðburði og tekið þátt í fjölmörgum hátíðum og verkefnum. Og fólk er að gefa af sér, skemmtir sér og vinnur að hag barnanna og fjölskyldnanna.

Móðurmálin eru börnum afar mikilvæg. Móðurmálin tengja börnin við foreldra sína og fjölskyldur, en þau gera börnum einnig kleift að ná betri árangri í skólum. Tvítyngd börn sem hafa náð góðri færni á öllum sínum tungumálum eru skapandi, sveigjanleg, smart. Þau skilja betur en eintyngd börn hvernig tungumálin virka, og hafa innsýn í fleiri menningarheima. Og þau koma með sín tungumál og menningarheim í kennslustofuna og eru tilbúin að deila þeim með öðrum og gera skólastarfið ríkara.

Félagið Tékkneska á Íslandi er hluti af Móðurmáli – samtökum um tvítyngi, en hér starfa tuttugu og fimm tungumálahópar og um hundrað móðurmálskennarar. Þeir eru allir sjálfboðaliðar sem hitta börnin vikulega, yfirleitt á laugardögum eða sunnudögum, til að kenna þeim, fræða þau, lesa og syngja með þeim og deila með þeim því sem þeim þykir vænt um. Þetta fólk er hvunndagshetjur, fólk yfirleitt af erlendum uppruna sem vinnur sína hversdagsvinnu, sinnir fjölskyldu, er stundum í námi til að fá viðurkennda menntun, en að auki sinnir það reglulega móðurmálskennslu í sínum frítíma, af því að það er mikilvægt fyrir börnin.

Móðurmálskennarar eru hetjurnar mínar því að þeir eru að gefa tímann sinn og þekkingu til að mennta börnin og gefa þeim betri framtíðarmöguleika. Móðurmálskennarar eru hetjurnar mínar því að þeir fá hvergi viðurkenningu fyrir óeigingjarna vinnu sína. Þeir gerast oft ráðgjafar foreldra af erlendum uppruna og leggja jafnvel inn sitt eigið fé til að kaupa efni fyrir móðurmálstímana. Móðurmálskennarar sem ég þekki kunna íslensku og byggja brýrnar á milli ólíkra menningarheima. Þeir skapa fjölmenningarlegan skóla þar sem bakgrunnur barnanna og fjölskyldna er virtur og þeir rétta út hönd til kennara og heimaskóla fjöltyngdra barna. Og ég ætti frekar að skrifa ÞÆR, því þetta eru í flestum tilvikum konur, menntaðar, metnaðarfullar konur sem láta gott af sér leiða og sem leitast við það að gera samfélagið sem þær lifa í, betra.

Við komum til Íslands af ólíkum ástæðum en við höfum sameiginlegt markmið með mörg þúsund sjálfboðaliðum sem starfa víða um land – við erum næs. Og þetta er boðskapur sem ég vil deila með ykkur, kæru lesendur, á þessum myrku tíma ársins, og í okkar samfélagi sem býr á eyju, en er samt hluti af stórum flóknum heimi. Þó að við séum ólík, erum við næs.

Renata Emilsson Peskova, háskólanemi og formaður Móðurmáls – samtaka um tvítyngi